Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar hvort og þá hvernig eftirlýstur Íslendingur tengist langstærsta kókaín-máli Íslandssögunnar. Sá sem aldrei náðist gekk undir nafninu „Nonni“ í réttarhöldunum.
Interpol lýsti eftir Pétri Jökli Jónassyni, 45 ára gömlum Íslendingi, í tengslum við rannsókn á langstærsta kókaínmáli Íslandssögunnar sem snýr að smygli á 100 kílóum af kókaíni til landsins. Eftirlýsingin var send að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjallað er ítarlega um málið á vef rúv.is.
Mesta magn kókaíns í Íslandssögunni
Þar segir. ,,Málið kom upp fyrir tæpum tveimur árum. Kókaínið hafði verið kirfilega falið í sjö timburdrumbum í gámi sem sendur var frá Brasilíu til Íslands með viðkomu í Rotterdam. Efnið kom aldrei til landsins því hollenskir tollverðir fjarlægðu það og komu gerviefni fyrir í staðinn.
Fjórir Íslendingar voru sakfelldir fyrir smyglið. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur töldu sannað að fjórmenningarnir hefðu skipulagt smyglið í félagi við einn óþekktan mann og lögreglumenn sem gáfu skýrslu í málinu upplýstu að meintur höfuðpaur væri enn til rannsóknar. Sá var yfirleitt kallaður „Nonni“ í réttarhöldunum og samkvæmt upplýsingum fréttastofu er til skoðunar hvort Pétur Jökull sé umræddur maður.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi ekki tjá sig um þetta atriði og hvorki verjendur sakborninga í málinu né saksóknari.
Sögðu frá samskiptum sínum við hin óþekkta „Nonna“
Birgir Halldórsson, einn fjögurra sem hlaut dóm í málinu, sagði fyrir dómi að hlutverk hans hefði verið að taka við upplýsingum frá „Nonna“ og koma þeim áfram. Þetta hefðu meðal annars verið upplýsingar um hvernig ætti að koma kókaíninu úr gámnum þegar hann væri kominn til Íslands og hvar ætti að koma því fyrir.“