Vilja 85% íslendinga ennþá að ríkisbankarnir verði Samfélagsbankar, eða eigum við að einkavinavæða þúsund milljarða hagnað þeirra?
Samkvæmt könnun sem var gerð síðla árs 2016 vildu um 85% íslendinga sem að svöruðu í könnun að ríkisbankarnir yrðu gerðir að Samfélagsbönkum og það var löngu áður en rannsóknarskýrsla kom út sem að fletti ofan af glæpastarfseminni í sambandi við einkavinavæðingu bankanna.
,,Samfélagsbankarnir þýsku hafa kennitölu frá árinu 1778 en ekki 2010 eins og íslensku bankarnir.“
Nú, þegar að farið er að huga að sölu eða einkavinavæðingu á ríkisbönkunum enn á ný, þá þyrfti nauðsynlega að gera nýja könnun á meðal þjóðarinnar. Best væri að opnuð yrði samráðsgátt til þess að þjóðin geti tekið ákvörðun um það hvernig best sé að standa að málum varðandi eign sína.
Það er augljóst mál að bankarnir eru ein stærsta mjólkurkú þjóðarinnar og hafa skilað henni um eitt þúsund milljörðum í hagnað frá hruni og þjóðin á þá sem hefur greitt okurvexti til bankanna. En ekki spilltir stjórnmálamenn sem eru kjörnir til bráðabirgða hverju sinni, eins og þekkt er í óstöðugleikanum og vitfirringunni í leikhúsi fáránleikans við Austurvöll þar sem að er kosið með taktföstu, millibili. Yfirleitt of snemma eða akkúrat í tíma til afstýra frekari slysum og stórkostlegum afglöpum af vilja eða gáleysi, hvernig sem á það er horft.
Þjóðin hlýtur að vilja eiga bestu mjólkurkúnna sína áfram og leiðin til þess er að breyta ríkisbönkunum í Samfélagsbanka. Pólitíkusar og þá sérstaklega gömlu flokkarnir, sjálfstæðis og framsóknarflokkur vilja ólmir einkavinavæða gróðann „aftur“. Þjóðin man vel eftir þeim hörmungum sem að síðasta einkavinavæðing þeirra var og hafa verið skrifaðar um hana ítarlegar rannsóknarskýrslur, þar kom m.a. fram að gæðingar flokkanna eignuðust bankana og öll þekkjum við þá hörmungasögu.
Helmingarskiptaregla hundrað ára gamalla flokka fékk þá að ráða málum okkar eins og alltaf og klíkuskapur og síðar glæpastarfsemi komu síðar í ljós að vanda
Helmingarskiptaregla þessara hundrað ára gömlu flokka fékk þá að ráða málum okkar eins og alltaf og klíkuskapur og síðar glæpastarfsemi komu síðar í ljós að vanda. Sömu flokkar, sjálfstæðis- og framsóknarflokkur eru nú búnir að setja það í stjórnarsáttmálann að selja (gefa) bankana aftur með blessun VG (sem er með allt niður um sig eins og alltaf).
Þá var Arion banki einkavæddur fyrir áramót eins og frægt er orðið og Borgun þar áður ef að einhver er búinn að gleyma því.
Nú eru seljendurnir (Sjallarnir) farnir að tala söluandlagið niður og að nauðsynlegt sé að gefa a.m.k. 100 milljarða í afslátt, til þeirra „sem að fá“ bankana, því að það sé svo erfitt að finna kaupanda að mjólkurkúnni. “Hvílíkt leikrit“ að byrja söluhugleiðingar á því að bjóða ríflegan afslátt upp á 100 milljarða.
Annað hvort er búið að finna gæðinga í einkavinavæðingaferlið eða að þetta fólk gengur ekki heilt til skógar. Ég giska á að hið fyrra eigi við í þessu tilfelli. Þ.e. að það eigi að ljúga út þessa verðmætu eign þjóðarinnar og gefa útvöldum og innmúruðum vinum eins og alltaf áður.
Nú verð ég að stoppa hér við og benda yngri lesendum á að googla söguna um einkavæðingu bankanna sem að leiddi til hruns íslenskra heimila og þjóðarinnar allrar en þar bera stjórnmálamenn mikla ábyrgð ásamt þeim sem að fengu bankana. Hafa sumir hverjir setið í fangelsi en stjórnmálamennirnir hafa aldrei axlað neina ábyrgð, í boði kjósenda. Lesið og sjáið heildarmyndina.
Samfélagsbanki i í eigu þjóðarinnar, það er málið, þá þyrfti heldur ekki að gefa 100 milljarða afslátt til „kaupenda – þyggjenda“- “af því bara“ og þeir 100 milljarðar munu nýtast mjög vel í Samfélagsbönkum sem að væru um allt land og mundu styrkja landsbyggðina m.a. og þá innviði sem að þar hafa grotnað niður eftir að byggðir landsins misstu kvóta sinn og lífsviðurværi í einkavina-sameiningar-ferlum til 10 fyrirtækja á Íslandi sem eiga meiripart allra veiðiheimilda.
Samfélagsbankar hafa markaðshlutdeild sem er allt upp í 90 prósent í Þýskalandi og þar er virk samkeppni en ekki einokun eins og er á Íslandi vegna krónunnar og einangrunar frá frjálsum mörkuðum. Markaðslögmál fá ekki að þrífast á Íslandi, frjáls samkeppni og þ.h. fær ekki að þrífast á Íslandi, bara fákeppni á öllum sviðum þar sem að pólitískir vinir fá að lifa í pilsfaldakapítalisma sem er eini kapitalisminn á Íslandi og í óstöðugleika í gölluðu og ónothæfu hagkerfi sem er hvergi til í veröldinni nema á eyju norður í hinu óbyggilega.
Það þarf að upplýsa þjóðina um kosti Samfélagsbanka og ókosti ef að einhverjir eru. Ég vitna hér í mjög ítarlega og góða samantekt sem að Spegillinn gerði með ítarlegri rannsóknarvinnu sinni á Samfélagsbönkum sem að eru reknir sem sjálfseignarstofnanir í Þýskalandi. Þjóðin getur þar fræðst um sögur bankanna sem eru með kennitölur frá árinu 1778 en ekki 2010 eins og þeir íslensku eða hvaða kennitölu þeir eru með í dag, íslensku bankarnir eru jú kennitöluflakkarar og vel má vera að þeir hafi enn nýrri kennitölu í dag.
,,Sparkassen bankarnir eiga sér sögu í Þýskalandi allt til ársins 1778 þegar fyrsti bankinn var stofnaður í Hamborg. Þetta form bankarekstrar breiddist síðan út um Þýskaland, bankarnir voru einkum í eigu sveitarfélaga. Í kreppunni miklu urðu breytingar til þess sem ríkir enn þann dag í dag. Sparkassen bankarnir voru gerðir að sjálfseignarstofnunum sem starfa samkvæmt sérstökum lögum sem um þá gilda. Þar sem enginn á þá er bannað að selja þá, enda enginn sem getur selt þá og þeim eru settar mun strangari reglur en einkareknum bönkum á ýmsum sviðum.
Strangar reglur gilda um áhættuviðskipti, og bónusgreiðslur til starfsfólks eru bannaðar. Viðskiptavinir Sparkassen bankanna eru almenningur, og lítil og meðalstór fyrirtæki, en slík fyrirtæki eru raunar hryggjarstykkið í þýska hagkerfinu. Þá eru Sparkassen bankarnir skyldaðir með lögum til að þjóna öllum jafnt, þeir geta ekki hætt starfsemi á ákveðnum svæðum á þeim forsendum að viðskiptin séu lítt eða ekki hagkvæm.
Sparkassen banki getur ekki lokað útibúum eins og íslensku bankarnir hafa gert í hagræðingarskyni. Wolfram Morales segir að hvergi í öllu Þýskalandi sé lengri leið að næsta Sparkassen útibúi en 5 – 6 kílómetrar. Almenn bankastarfsemi, móttaka innlána og veiting lána er fyrst og fremst í verkahring Sparkasse bankanna, önnur bankastarfsemi er á hendi stóru einkabankanna. Síðast en ekki síst ber Sparkassen bönkunum lagaleg skylda til að verja hagnaði sínum til verkefna á starfssvæði hvers og eins banka. Sparkassen bankarnir eru að mestu sjálfstæðar einingar sem eru samtengdar með ýmsu móti, hafa sameiginlega yfirstjórn og eitt miðlægt gagnaver. Hlutdeild Sparkassen bankanna í almennri bankastarfsemi er mikil,segir Wolfram Morales.
Mikil makaðshlutdeild
Ef litið er á innlánin, þá er hlutdeildin um 50 prósent. Hlutdeild í útlánum er um 40 prósent.Hlutdeild í lánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja er 44 prósent. Þetta er hins vegar breytilegt milli landsvæða. Í dreifbýli er markaðshlutdeildin allt upp í 90 prósent en í borgum þar sem margir bankar starfa getur hún farið niður fyrir þriðjung.
Þýska bankakerfið hvílir a þrem meginstoðum, einkabönkum, sparkassen bönkum og samvinnubönkum sem eru í eigu samvinnuhreyfingar og þjóna meðlimum hennar. Sé litið til Bretlands þá er markaðshlutdeild fjögurra stærstu einkabankanna um 85 prósent. Í Þýskalandi er markaðshlutdeild einkabankanna í almennri bankastarfsemi 20 til 25 prósent. 75 til 80 prósent markaðarins er á höndum sparkasse bankanna og samvinnubankanna.
Mikið traust
Wolfram Morales hefur auðvitað heyrt raddir sem segja að bankakerfi sem þetta geti ekki verið það besta, bankastarfsemi sé fyrir einkaaðila og það sé ávísun á spillingu að opinberir aðilar véli með annarra fé en ekki sitt eigið. Hann segir að slíkar raddir séu aðhlátursefni í Þýskalandi, því reyndin sé þveröfug. Hjá Sparkassen séu afar strangar reglur sem eiga að koma í veg fyrir spillingu. Stjórnmálamenn ráði aðeins þriðjungi í æðstu stjórn. Sérfræðingar einum þriðja og notendur einum þriðja. Nýleg skoðanakönnun segi meira en mörg orð. Samkvæmt henni eru sparkassen bankarnir mjög ofarlega á blaði meðal þeirra stofnana í þýsku samfélagi sem almenningur treystir mjög vel. 54 prósent segjast treysta þeim mjög vel en sambærileg tala fyrir einkabankana er 21 prósent.
Wolfram Morales segir það eðli áhættuviðskipta af því tagi sem stórir bankar á borð við Deutsche bank stunda að stundum verði mikill gróði og líka stór töp. Þetta endurspeglast í því segir hann hverju þessar stofnanir skila til samfélagsins.
Leggja meira til samfélagsins en stórir einkabankar
Þegar litið er á summu allra skatta sem þýskir bankar greiða kemur í ljós að sparkassen bankar greiða tvöfalt á við einkabankana. Sparkassen bankar eru líka 50 prósentum hagkvæmari en stærsti banki Þýskalands, Deusche bankí þeim skilningi að þeir fyrir hverja fjármálaafurð, greiða þeir helmingi minna. Sparkassen bankarnir hafa líka sterkari eiginfjárstöðu. Morales er þeirrar skoðunar að einkabankarnir geri vel í almennri bankaþjónustu, en í heildina standi áhættusæknin þeim fyrir þrifum. Þeir standi sig einungis vel í heildina þegar verðþensla er í verðbréfaviðskiptum áður en kemur að verðfalli.
Velþóknun almennings í garð sparkassen telur Morales stafa af því að allir eiga aðgang að þjónustu í nærumhverfi sínu, lítil fyrirtæki og meðalstór njóti skilnings, litlu sparkassen útibúin séu til staðar fyrir þau og tali sama tungumál og þau. Vinsældir sparkassen bankanna stafi líka af því að almenningur sjái hver í sínu heimahéraði að sparkassen leggi fram fé til ýmiskonar samfélagslegra málefna, Hagnaður hverfur ekki úr héraði.“ Segir Spegillinn um Samfélagsbanka í mjög nákvæmri úttekt. Ég held að okkur íslendingum sé betur borgið með því að eiga mjólkurkýrnar okkar en að gefa þær í boði 100 ára gamallar úreltrar hugsunar fjórflokksins. Sporin hræða ef að fólk nennir að hugsa til baka.
Jón Gunnarsson, frkv. stj.
Tengt efni:
https://gamli.frettatiminn.is/20/12/2020/djuprikid-islandsbanki-fakeppni-samherji-dnb-icelandair-og-fleira/