Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir fjórum sakborningum vegna rannsóknar á meintu manndrápi í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Allir sakborningarnir voru handteknir á vettvangi skömmu eftir komu viðbragðsaðila en grunur vaknaði þegar á vettvangi um að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.
Eins og komið hefur fram barst tilkynning til Neyðarlínu – 112 um meðvitundarleysi rétt fyrir klukkan 14:00 í gær þann 20. apríl. Hinir grunuðu, ásamt hinum látna, eru allir karlmenn af erlendum uppruna.
Kröfurnar voru teknar fyrir í Héraðsdómi Suðurlands nú fyrir hádegi og er úrskurða dómara að vænta síðar í dag. Rannsókn lögreglu miðar að því að upplýsa um atburðarás á vettvangi og með hvaða hætti andlát mannsins bar að.
Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Umræða