Árið 2018 voru 9% íbúa á Íslandi undir lágtekjumörkum eða um 31.400 einstaklingar sem bjuggu á um 16 þúsund heimilum. Hlutfallslega færri voru undir lágtekjumörkum hérlendis árið 2018 en á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið var 16-18%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.
Frá upphafi mælinga árið 2004 hefur lágtekjuhlutfallið verið hærra meðal leigjenda en meðal fólks sem býr í eigin húsnæði. Árið 2018 voru 20% heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en 6% heimila í eigin húsnæði. Á þeim fimmtán árum sem liggja til grundvallar hefur hlutfall leigjenda undir lágtekjumörkum verið 25% að meðaltali, lægst fór það í 20% (árin 2014 og 2018) en hæst fór það í 32% (árið 2009). Hlutfall eigenda undir lágtekjumörkum fór hæst í 11% árið 2007 en var lægst árin 2011 og 2012 þegar það var um 5%. Hér er vert að nefna að erfiðara er að leggja nákvæmt mat á hlutfall heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en á sama hlutfall heimila í einkaeigu, sem sést á því að 95% öryggisbil matsins er breiðara fyrir leigjendur en eigendur.
Myndin sýnir hlutfall (%) heimila undir lágtekjumörkum og 95% öryggisbil.
Þegar litið er til skorts á efnislegum gæðum reyndust 4% einstaklinga búa við skort og 0,7% búa við verulegan skort árið 2018. Þetta er lækkun frá árinu 2016 þegar 6,1% bjuggu við skort og 1,9% við verulegan skort efnislegra gæða.
Hlutfallslega fáir búa við skort á Íslandi í evrópskum samanburði og á það einnig við um hin Norðurlöndin. Að meðaltali bjuggu 15% við skort á efnislegum gæðum í ríkjum Evrópusambandsins árið 2017, hlutfallslega fæstir í Svíþjóð (4%) en flestir í Búlgaríu (44%).
Um gögnin
Gögnin eru úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Samhliða birtingu á niðurstöðum fyrir skort á efnislegum gæðum fyrir árin 2016-2018 hafa eldri niðurstöður verið endurskoðaðar. Sökum breytinga á orðalagi spurningar um vikulangt frí eru eldri niðurstöður ekki að fullu sambærilegar við nýjustu mælingar. Tölur fyrir árið 2018 eru bráðabirgðatölur.
Lágtekjuhlutfall er hlutfall einstaklinga sem eru með ráðstöfunartekjur undir lágtekjumörkum. Lágtekjumörk miðast við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu taka mið af heildarráðstöfunartekjum heimilis og hversu margir þurfa að lifa af þeim. Tveir fullorðnir með tvö börn þurfa til dæmis 2,1 sinni hærri ráðstöfunartekjur en sá sem býr einn til þess að vera með sambærilegar ráðstöfunartekjur.
Þau sem teljast búa við skort á efnislegum gæðum búa á heimili þar sem að minnsta kosti þrennt af eftirfarandi á við:
- Heimilisfólk hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
- Heimilisfólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
- Heimilisfólk hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á þvottavél.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á bíl.
- Heimilisfólk hefur ekki efni á að halda húsnæði nægjanlega heitu.
Upplýsingar um evrópskan samanburð á lágtekjumörkum
Upplýsingar um evrópskan samanburð á skorti á efnislegum gæðum
Lífskjararannsókn Hagstofunnar er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í 5 þúsund heimili árlega. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má lesa í lýsigögnum.
Talnaefni