Áskorun hefur verið send á alla stjórnmálaflokka að tryggja eldri borgurum sæti á lista sem gæti tryggt þeim þingsæti. Enda er það á Alþingi sem kjör og velferð eldri borgara eru ráðin. Að áskoruninni stendur formaður LEB ásamt formönnum nokkurra stærstu félaga eldri borgara innan vébanda LEB. Þá hafa öll aðildarfélög LEB verið hvött til að beita samskonar þrýstingi á stjórnmálaflokka í sínum kjördæmum.
ÁSKORUNIN: Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf
Efni: Nauðsynlegt að fleiri eldri borgarar taki sæti á Alþingi
Árið 2021 verða um 75.000 manns á Íslandi, 60 ára og eldri, þar af eru um 45.000 67 ára og eldri. Þetta fólk krefst þess að fá rödd í samfélaginu. Við skorum á þinn stjórnmálaflokk að tryggja fólki úr þessum aldurshópi sæti á framboðslistum flokksins fyrir Alþingiskosningarnar haustið 2021, þannig að fleiri raddir eldri kynslóðarinnar fái að heyrast í sölum Alþingis á næsta kjörtímabili.
Það er staðreynd að þeir sem eru komnir á eftirlaun í samfélaginu njóta margir hverjir ekki sömu réttinda og aðrir þegar kemur að því að hafa áhrif á eigin stöðu. Þeir hafa engan samningsrétt um kjör sín, alltof margir þeirra sem eldri eru hafa laun sem eru undir lágmarkslaunum í samfélaginu og búa við tvöfalt skattkerfi, bæði hjá Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun ríkisins. „Ellilífeyrir“ frá TR er nú rétt um 266 þúsund krónur á mánuði. Það eru hins vegar fáir sem njóta hans að fullu vegna mikilla skerðinga. Atvinnumarkaðurinn hafnar gjarnan eldra fólki og ýtir því út af vinnumarkaðinum, jafnvel áður en það nær lögboðnum eftirlaunaaldri. Þessi hópur lifir hins vegar lengur við betri heilsu en áður og margir bæði vilja og geta haldið áfram starfi. Þessu virðist afskaplega lítill gaumur gefinn á löggjafarsamkundunni, því ekkert breytist ár eftir ár.
Fyrir hverjar kosningar heita frambjóðendur allra flokka því að bæta hag eldra fólks, en þegar kemur að því að semja stjórnarsáttmálana eftir kosningar, lenda málefni eldri kynslóðarinar yfirleitt aftarlega á forgangslistanum. Sveitarstjórnir hafa stofnað öldungaráð og það er tími til kominn að „öldungadeild“ verði sett á stofn við Alþingi íslendinga.
Sá tími er nefnilega liðinn þegar eldra fólk var fyrst og fremst „þakklátir þiggjendur“ sem höfðu sig lítt í frammi í þjóðfélagsumræðunni. Eldra fólk í dag vill og ætlar sér að hafa áhrif á stöðu sína í samfélaginu. Fyrsta skrefið í þá átt er að höfða til stjórnmálaflokkanna, að þeir fjölgi fólki sem er komið á efri ár, á framboðslistum sínum í kosningunum í haust og sýni þannig í verki að þeir meti þekkingu og reynslu þessa fólks til jafns við þekkingu og reynslu annarra aldurshópa. Eldra fólk hefur ekki áhuga á vera „uppá punt“ á listunum. Það vill komast á þing til að hafa áhrif.
Samtök eldra fólks munu á næstu vikum óska eftir samtali við flokkinn um áherslur hans í málefnum þeirra í komandi kosningum.
F.h. aðgerðahóps eldra fólks:
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara.
Ingibjörg H. Sverrisdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.
Ragnar Jónasson formaður Félags eldri borgara í Kópavogi.
Valgerður Sigurðardóttir formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði.
Stefanía Magnúsdóttir formaður Félags eldri borgara í Garðabæ.
Guðrún Eyjólfsdóttir formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum.
Ingólfur Hrólfsson formaður Félags eldri borgara í Mosfellsbæ.