Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM. Þetta kemur fram í svari bankaráðs Landsbankans við bréfi Bankasýslunnar þar sem óskað var eftir upplýsingum um kaup bankans.
Í svarinu segir að bankaráð hafi, frá miðju ári 2023, átt frumkvæði að samskiptum við Bankasýsluna þar sem fram hafi komið áhugi bankaráðs á tryggingamarkaðinum og, eftir atvikum, kaupum á TM.
Þá hafi formaður bankaráðs greint Bankasýslunni frá því að bankinn hefði haft samband við Kviku, eiganda TM, og lýst yfir áhuga á að kaupa tryggingarfélagið. Þetta hafi verið gert í tölvupósti þann 11. júlí 2023. Fram kemur í svarinu að Bankasýslan hefði svarað tölvupóstinum samdægurs án athugasemda varðandi kaupin.
Í framhaldinu hófst formlegt söluferli á TM, þann 17. nóvember. Í lok desember hafi Bankasýslan þá verið upplýst um að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM. Félagið lagði síðan fram skuldbindandi tilboð þann 15. mars 2024, sem var samþykkt af Kviku.
Fram kemur að Bankasýslan hafi aldrei sett fram athugasemdir eða óskað eftir frekari upplýsingum eða göngum fyrr en tilkynnt var um að Kvika hefði samþykkt skuldbindandi tilboð bankans þann 17. mars.
Í svarinu segir einnig að bankaráð hafi „[uppfyllt] skyldur sínar til upplýsingagjafar í samræmi við núgildandi eigandastefnu ríkisins sem og samkvæmt samningi bankans við Bankasýsluna frá 2010.“
Landsbankinn – Bankasýslan krefst þess að aðalfundi verði frestað