Frelsi til viðskipta með reiðufé
Bankarnir hafa verið í herferð undanfarna mánuði gegn því að fólkið í landinu megi nota reiðufé í friði. Þetta er alveg fáránlegt og það er alveg kristaltært að bankarnir eru ekki að hugsa um hag almennings frekar en fyrri daginn, enda borgum við hæstu bankavexti í heimi. Bankar á Íslandi eru sjaldnast og í mjög mörgum tilfellum aldrei að hugsa um hag viðskipta“vina“ eins og frægt er orðið í öllum þeim spillingarmálum sem hafa komið upp í bankakerfinu sem nýtur ekki trausts á meðal almennings.
Bankarnir vilja að allir leggi peninga inn á þeirra reikning svo þeir geti braskað með peningana okkar, við erum blóðið sem knýr hjarta starfsemi þeirra áfram. Án okkar eru bankarnir ekki neitt, við erum lífsnauðsynleg fyrir bankana, ekki öfugt. Í verðlaun fáum við vexti frá bankanum sem eru hlægilega lágir, við tökum ekki einu sinni eftir þeim á kortunum okkar. En ef við ætlum að fá lán, þá þurfum við að borga okurvexti.
Okurvextir eru á öllum útlánum bankanna og allskonar kostnaður en ef maður á innistæðu fær maður varla krónu í vexti til baka frá þeim. Fólk verður að átta sig á því að bankar eru ekki félagsmálastofnun eða sjoppa sem er að hugsa um þinn hag, þeir hugsa eingöngu um sjálfa sig og af mikilli eigingirni. Þess vegna vilja þeir ekki að ég og þú séum með lausa peninga sem að þeir geta ekki verið með inni á sínum reikningi, þetta er ekkert flóknara en það. Engin geimvísindi!
Þegar svo einhverjir meðalgreindir verslunareigendur gleypa þá vitleysu hráa að taka ekki við reiðufé. Þá er mér nóg boðið og ég kem aldrei inn í þær verslanir aftur sem eru ekkert annað en musteri heimskunnar, þar sem troðið er á sjálfsögðum mannréttindum og frelsi til að nota þá peninga sem maður á í það sem maður vill og með þeim hætti sem maður kýs.
Ég varð vitni af því að kona var rekin út úr verslun vegna þess að hún ætlaði að greiða fyrir litla ljósaperu með klinki. Afgreiðslumaðurinn neitaði að taka við klinkinu þrátt fyrir að konan hefði sagt við hann að færslugjaldið frá bankanum væri of hátt í krónum og prósentum talið miðað við þessi pínu litlu innkaup upp á nokkrar krónur. En nei, hún var rekin út! Hvert er almenna skynsemin farin??? Hefur heimskan tekið öll völd?
„Það eru ekki allir að stela og það hafa ekki allir eitthvað að fela“
Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar sagði í viðtali við Morgunblaðið að með notkun rafrænna korta, eða greiðslukorta, verði til saga um líf og neysluhegðun einstaklings. Lögregla geti óskað eftir aðgangi að þessari sögu vegna rannsóknarhagsmuna. Þá liggi einnig fyrir að neysluhegðun á netinu er verðmæt söluvara og mikil ásókn fyrirtækja í slíkar upplýsingar.
Helga spyr hvers virði það sé að fá að vera frjáls manneskja, án þess að það sé rakið. „Það eru ekki allir að stela og það hafa ekki allir eitthvað að fela,“ segir hún. Það megi vel vera að flestir kjósi að nota greiðslukort en allt sem sé rafrænt skilji eftir sig slóð.
Í því samhengi þurfi að spyrja sig í hvernig samfélagi við viljum búa. Hverjir eru hagsmunir þess að taka reiðufé úr umferð? Eigum við sem einstaklingar og borgarar ekki að geta haft val um það hvort við viljum eiga rekjanleg viðskipti hverju sinni eða ekki? spyr Helga.
Þá kallar Helga eftir því að umræða skapist í samfélaginu um framtíðina í þessum efnum, áður en tekin er ákvörðun um að taka reiðufé úr umferð, af þar til bærum yfirvöldum.