Félagsdómur sýknaði Kennarasamband Íslands af kröfum um að boðuð verkföll kennara séu ólögmæt. Verkföll hefjast í 11 skólum í næstu viku hafi samningar ekki náðst
Kennarasamband Íslands var sýknað í morgun af kröfum um að boðuð verkföll kennara hafi verið boðuð með ólögmætum hætti og var fjallað um málið á vef ríkisútvarpsins.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir verkföll fara í gang í 11 skólum í næstu viku verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.
Magnús segir að mikill tími hafi farið í að undirbúa málið hjá Félagsdómi og því hafi gefist minni tími til að vera við samningaborðið. En nú þegar niðurstaða liggur fyrir munu samningsanefndir geta sest niður og haldið áfram með það verkefni að gera kjarasamninga við kennara.
Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar klukkan 13 í dag. Magnús segir ekki mikinn tíma til samninga áður en boðuð verkföll eiga að hefjast á þriðjudag.
„Það liggur skýrt fyrir að verkföllin verða á þriðjudaginn ef okkur tekst ekki að klára verkefnið fyrir þann tíma,“ segir Magnús í viðtalinu.