,,Það hentar okkur illa að við sjálfar höfum ekkert um verðlagninguna á vinnu okkar að segja; af því leiðir að við erum verðlagðar eins og hvert annað drasl“
,,Verka og láglaunakonur standa í svakalegri réttlætisbaráttu, baráttu fyrir því að þurfa ekki lengur að vera ódýrt og ófrjálst vinnuafl. Fólk sem vill ekki styðja okkur í þeirri baráttu er einfaldlega að segja að því finnist ekkert að því að konum sé haldið undirsettum. Og það fólk á bara að skammast sín.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir.
,,Konur um víða veröld rísa nú upp og krefjast þess að langanir þeirra og þarfir verði ekki áfram afgangsstærðir þegar kemur að því að skipuleggja mannlega tilveru, að þær fái pláss til að ákveða hvernig líf þær vilja. Láglaunakonur á Íslandi eru í nákvæmlega þessari baráttu: Okkur hefur verið gert að spila eftir leikreglum sem við komum ekki nálægt að semja og hin óumflýjanlega niðurstaða þeirrar tilhögunar er sú að leikreglurnar henta okkur alls ekki vel. Þvert á móti; þær henta okkur afskaplega illa.
Það hentar okkur illa að þurfa að vinna langa daga í krefjandi störfum til þess eins að eiga kannski (og kannski ekki) nóg fyrir nauðsynjum. Það hentar okkur illa að enginn hafi axlað þá ábyrgð að gæta þess að við höfum aðgang að góðu húsnæði á eðlilegu verði. Það hentar okkur illa að skattbyrði hafi verið aukin á þau sem minnst hafa á milli handanna. Það hentar okkur illa að við sjálfar höfum ekkert um verðlagninguna á vinnu okkar að segja; af því leiðir að við erum verðlagðar eins og hvert annað drasl. Við erum neðstar í hinu efnahagslega stigveldi.
Við verka- og láglaunakonur eigum skilið hærri laun. Við eigum skilið skattkerfi sem gerir líf okkar betra og auðveldara. Við eigum skilið að fá að hefja vegferð okkar í átt að því frelsi sem okkur hefur kerfisbundið verið neitað um. Fyrir þessu ætlum við að berjast.
Þau sem taka afstöðu gegn kröfu verka og láglaunafólks um að lágmarkslaun verði 425.000 krónur á þremur árum eru í raun að krefjast þess að láglaunakonur haldi áfram að færa fórnir, að við höldum áfram að selja tíma okkar og líf ódýrt, að við höldum áfram að vera ófrjálsar. Til þess hafa þau nákvæmlega engan rétt.
Það er einfaldlega komið að skuldadögum; við ætlum okkur að fá það sem við eigum inni.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir.