10. september ár hvert er tileinkaður sjálfsvígum. Þá fyllast fjölmiðlar af umræðunni og fulltrúar PÍETA samtakanna eru áberandi í þeim. Það eina sem kemur fram í þessari umræðu er fjöldi sjálfsvíga en samkvæmt tölum landlæknis þá voru þau að meðaltali 39 á ári síðasta áratug.
Nokkuð en ekki eins mikið er rætt um kynjaskiptingu þeirra sem taka eigið líf en samkvæmt sömu tölfræðigögnum voru sjálfsvíg karla að meðaltali 17,9 og kvenna 9 á ári. M.ö.o. eru menn 3,4 sinnum líklegri til að fremja sjálfsvíg en konur.
Hugsanlegar ástæður
Það er nokkuð makalaust að ekki er gerð minnsta tilraun til að greina þennan kynjamun. Ungir menn eru í miklum áhættuhópi og langar mig til að nefna nokkur atriði sem gætu verið ástæðan fyrir þessu.
- Læsi og lesskilningur drengja er verulega lakari en stúlkna, Þetta veldur þeim vandræðum í nútíma samfélagi og heftir möguleika þeirra mikið, ekki bara til að mennta sig heldur líka til að taka þátt í samfélagsumræðunni. Brottfall drengja úr framhaldsskólum er miklu hærra hjá drengjum en stúlkum. Ótrúlega lítið hefur verið rætt um að laga þetta og ekkert gert og ekki að sjá að neinn vilji sé til þess. Þingkona sagði einu sinni að allt yrði vitlaust ef þetta gilti um stúlkur.
Öll samfélagsfræðsla er á forsendum kvenna og á þetta sérstaklega við um kynja- og kynlífsfræðslu
- Öll samfélagsfræðsla er á forsendum kvenna og á þetta sérstaklega við um kynja- og kynlífsfræðslu. Þar eru konur sem kenna þetta á forsendum kvenna. Verulegur munur er á áhuga kynjanna á kynlífi og kynörvun, en það er bara talað um þetta á forsendum kvenna enda allir kynlífsfræðingar konur. Ekki batnar ástandið þegar kemur að kynjafræðinni. Hegðunarmynstur kynjanna er verulega mismunandi þar líka. Orðræða drengja er önnur og jafnvel grófari, deilumál eru leyst með öðrum hætti, drengir slást en stúlkur nota orðfæri og útilokun í sínum deilumálum. Bara slagsmál eru flokkuð sem ofbeldi, þótt allir vita að eineltið (andlega ofbeldið) er verra og varanlegra. Auk þess er við meðferð ofbeldishegðunar á fullorðinsárum, erfiðara að minnka andlega ofbeldið, sem konur beita frekar en líkamlegt ofbeldið sem karlar beita frekar. Öll áhersla í samfélagsumræðunni er á karlmenn sem gerendur þó kynin beiti álíka miklu ofbeldi. Þetta dregur upp staðalímyndir sem ungir drengir þurfa að burðast með.
Einelti og ásakanir
- Nú eru einstaka raddir farnar að tala um slaufumenningu (Cancel culture) sem fjallar um þegar fólk er útilokað frá þátttöku í samfélaginu og jafnvel lífsviðurværinu. Það eru eingöngu karlmenn sem verða fyrir þessu og það eru nánast eingöngu konur sem standa að þessu, þótt formlega framkvæmdin í útilokun geti í einstökum tilfellum verið á hendi karls. Þetta ofbeldi gerist í öllum greinum atvinnulífsins, allt frá opinberri stjórnsýslu, háskóla og í menninga- og skemmtanaiðnaðinum.
Karlmenn stimplaðir sem einu gerendurnir og konurnar sem þolendur
- Samkvæmt öllum hlutlausum rannsóknum þá er ofbeldi ekki kynjaskipt, ekki einu sinni kynferðislegt ofbeldi, þótt eðli þess sé mismunandi eftir kynjum. Fjölmiðlaumræðan er aftur á móti mjög röng og villandi. Þar eru karlmenn stimplaðir sem einu gerendurnir og konurnar sem þolendurnir. Skiptir ekki máli hvort hér sé um heimilisofbeldi að ræða eða kynferðisofbeldi. Þess er sérstaklega gætt að vera með ásakanir um kynferðislegt áreiti og ofbeldi í dylgjum og hálfkveðnum vísum. Fjölmiðlaumræðan er svo hlutdræg að karlmenn sem hafa sóst eftir því fá jafnvel ekki svarað fyrir sig. Karlmenn sem hafa viljað segja sögu sína sem þolendur eru iðulega hunsaðir.
Öryggismyndavélar afhjúpuðu lygina
- Ein saga sem var sögð undirrituðum af tengdum aðila: Fyrir rúmum áratug hafði kona verið að halda fram hjá manni sínum og haft kynmök með öðrum manni á salerni skemmtistaðar. Það varð óhapp og upp komst um framhjáhaldið. Til að bjarga hjónabandinu þá ásakaði hún manninn um nauðgun. Hann var vitaskuld strax um nóttina handtekinn og látinn sæta gæsluvarðhaldi. Það varð honum til happs að það voru öryggismyndavélar sem afhjúpuð lygina. Þetta voru mjög alvarlegar ásakanir og þeim fylgdi próf og rannsóknir, m.a. DNA próf og lagðist þetta allt mjög þungt á hann, þótt hann hafi verið hreinsaður af þessum ásökunum. Umræddur maður tók sitt eigið líf tveimur árum seinna en það er ekki víst að ástæða sjálfsvígsins hafi ratað inn í tölfræði landlæknis.
Skilnaðir og skilnaðarbörn
- Feður eiga í einhverjum tilfellum erfitt með að fá að halda góðu sambandi við börnin, ef foreldrar skilja. Stjórnkerfi og dómstólar dæma nær alltaf móðurinni í vil nema móðirin sé í eiturlyfjum eða annað sambærilegt. Þegar á deilunni stendur þá þurfa ólánsamir feður að sæta sársaukafullum tálmunum og ásökunum um áfengisnotkun, ofbeldi og stundum kynferðislegu ofbeldi, jafnvel gegn börnum sínum. Kveður svo rammt að þessu að bæði samtök og fjölmiðlar taka undir þetta og dæma föðurinn sem algjöran misyndismann. Það sem verra er að börnin eru alin upp í hatri á föðurnum, foreldraútilokun og oft eru tengslin endanlega rofin. Skiptir ekki máli þótt þetta valdi börnunum bæði varanlegum andlegum og líkamlegum heilsubresti. Mér er til efs að kannað hafi verið hversu stór hluti sjálfsvíga sé afleiðing tálmunar, því hún veldur oft lélegri sjálfsmynd sem leiðir til eiturlyfjaneyslu, en það er bara skoðuð neyslan en ekki orsök neyslunnar. Það eru líka mörg dæmi um að tálmaðir feður hafi tekið sitt eigið líf en það er ekki fjallað um það hérlendis þótt slík mál hafi komið í fjölmiðla erlendis.
Lífsviljinn hvarf algjörlega í kjölfar ásakanna
- Karlmaður var ásakaður af blaðakonu um að hafa drepið konu sína. Síðar komust yfirvöld að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki átt þátt í dauða hennar. Blaðakonan, sem hefur ítrekað dregið upp dökka mynd af karlmönnum, bar þessar röngu ásakanir upp á manninn. Samkvæmt fjölskyldumeðlimi þá hvarf lífsviljinn algjörlega í kjölfar ásakanna og sennilega tók hann eigið líf, líklega vegna árása í fjölmiðlum. Blaðakonan sá ekki einu sinni ástæðu til að biðjast opinberlega afsökunar. En fjölmargir karlmenn eru andlega niðurbrotnir eftir opinbera smánun á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þetta er ein birtingarmynd ofbeldis.Nú síðsumars var ungur piltur á norðurlandi áskaður um kynferðisbrot. þetta fór svo illa í hann, að í kjölfarið svipti hann sig lífinu. Var þetta svo mikið áfall að í kjölfarið voru haldnar minninga- og kyrrðarstundir í bæjarfélaginu um þennan pilt. Þessar sögur sem allar eru raunverulegar sýna hvað þessar ásakanir geta sært menn og það er lítið talað um þolendur né meðvirkni í þeim tilfellum.
Sitja undir einhliða og hlutdrægum ásökunum
- Eins og ég hef hér rakið þá hafa karlmenn þurft að sitja undir einhliða og hlutdrægum ásökunum um alls konar ofbeldi án þess að geta varið sig. Oft á tíðum saklausir.
Karlmenn fá í reynd enga aðstoð
- Þegar kemur að aðstoð til fórnarlamba ofbeldis þá er hundruð milljóna varið til að aðstoða konur. Karlmenn fá í reynd enga aðstoð, þótt látið sé í það skína að svo sé. Karlmenn geta ekki flúið af heimilinu hvorki einir né með börn sín. Opinberir aðilar hafa hunsað viðleitni til að stofna Karlaathvarf eða aðra aðstoð sem er ætluð karlmönnum. Ítrekað er hafnað öllum umsóknum um rannsóknir tengdar ofbeldi gegn karlmönnum. Jafnréttisráð er í miklum meirihluta skipað konum og hefur engan áhuga á þeim málefnum þar sem hallar á karlmenn. Það þarf því ekki að koma á óvart að drengir og karlmenn séu í tilfinningakreppu sem enginn kærir sig um að ræða. Þegar skoðaður er fjöldi sjálfsvíga meðal fólks á virkasta aldrinum, þ. e. a. s undir 45 ára, þá fremja karlmenn 4,3 sinnum oftar sjálfsvíg en konur. Þetta mun ekkert breytast meðan gengdarlaust níðtal í fjölmiðlum, kynjafræði með neikvæðni gagnvart karlmönnum og ofbeldi án viðurlaga þrífst í íslensku samfélagi,
Höfundur: Kristinn Sigurjónsson, Frv. lektor HR
Umræða