Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins birti neðangreinda grein á vef samtakanna þar sem hún lýsir óánægju sinni yfir því að verið sé að rannsaka eignatengsl og eignarhald í sjávarútvegi. Brim hf. slapp við að borga sekt Samkeppniseftirlitsins á útgerðarfélagið Brim hf. skv. úrskurði þar um. Sektin var til komin vegna þess að útgerðin vildi ekki veita upplýsingar vegna athugunar yfirvalda um eignar- og stjórnartengslin í íslenskum sjávarútvegi. Greinin hér að neðan fjallar að mestu leiti um þann úrskurð sem og óánægju með rannsóknina:
Upplýsingaöflun eftirlitsstofnunar sem er fjármögnuð af stjórnvaldi sem ekki fer með yfirstjórnunarheimildir þess, í pólitískum tilgangi, styður hvorki við ásýnd né, í reynd, sjálfstæði viðkomandi stofnunar.
Það kemur Samtökum atvinnulífsins ekki á óvart að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi staðfest að lög geri ekki ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið geri sérstaka samninga við stjórnvöld eða aðra aðila um einstaka athuganir gegn greiðslu. Viðbrögð eftirlitsins og yfirlýsingar um að áfram verið haldið með umrædda athugun, óháð niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og eins og ekkert hafi í skorist, koma hins vegar á óvart og valda vonbrigðum. Með öðrum orðum hyggst eftirlitið halda áfram með sömu athugun og það lét nota sig í pólitískum tilgangi með, nema nú verði það gert innan ramma samkeppnislaga. Eftir sem áður verður athugunin gerð og eftir atvikum nýtt í pólitískum tilgangi.
Samkeppniseftirlitið gegnir lykilhlutverki við að tryggja samkeppni á íslenskum markaði, sem styður við hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins er grunnforsenda þess að eftirlitið njóti trausts og geti sinnt því hlutverki. Það er mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til að stofnunin geti endurheimt traust í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.
Traustur lagagrundvöllur forsenda miðlunar upplýsinga
Samkeppniseftirlitið hefur undanfarin ár upplýst um þau áform sín að styrkja reglubundna yfirsýn yfir eigna- og stjórnunartengsl í íslensku atvinnulífi. Í því felst meðal annars uppsetning gagnagrunns og samstarf við aðra eftirlitsaðila um slík mál. Áformin eru ítrekuð í frétt eftirlitsins um úrskurð áfrýjunarnefndar.
Við einfaldlega verðum að geta treyst stofnunum með jafn viðamiklar heimildir og Samkeppniseftirlitið býr yfir.
Lögfræðilegur grundvöllur Samkeppniseftirlitsins að hugmyndum um slíkt samstarf opinberra eftirlitsstofnanna, þar á meðal með gerð gagnagrunna, er ekki fyllilega ljós. Hvergi er almenn heimild til miðlunar upplýsinga innan stjórnsýslunnar í lögum, þótt slíkar heimildir sé að finna í ýmsum sérlögum varðandi tilteknar eftirlitsstofnanir eins og Samkeppniseftirlitið. Miðlun upplýsinga milli stjórnvalda verður að hvíla á skýrri lagaheimild, auk þess sem gæta verður að persónuverndarsjónarmiðum og þagnarskyldu. Þá verður að sjálfsögðu að gæta meðalhófs, sjónarmiða um málefnalega stjórnsýslu og verkaskiptingu stjórnvalda. Samtök atvinnulífsins gera verulega fyrirvara við boðaða vegferð Samkeppniseftirlitsins að gættum þessum sjónarmiðum.
Eftirlitsstofnanir, líkt og stjórnvöld, gegna mikilvægu hlutverki fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélagið allt. Sjálfstæði þeirra, í reynd og ekki síður ásýnd, er grunnforsenda trausts. Við einfaldlega verðum að geta treyst stofnunum með jafn viðamiklar heimildir og Samkeppniseftirlitið býr yfir.
Það er kjarni málsins.
,,Ef þetta er rétt vantar um 20 milljarða í íslenskt hagkerfi á hverju ári“