Embætti landlæknis leiðir tvö stór lýðheilsuverkefni á sviði heilbrigðismála sem nýlega hafa hlotið nærri 1,0 milljarð kr. í styrk frá Evrópusambandinu. Um 800 m.kr. renna til verkefnis sem felst í innleiðingu árangursríkra aðgerða til að koma í veg fyrir ósmitbæra sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Hitt verkefnið snýr að aðgerðum til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Sá styrkur nemur um 113 m.kr. og mun styðja við framkvæmd verkefna í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda á þessu sviði.
Verkefnastyrkirnir eru fjármagnaðir af Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health) sem hefur aldrei veitt jafn háa fjárhæð til lýðheilsuverkefna og nú. Styrkirnir sem fara til sambærilegra verkefna í öðrum Evrópulöndum nema samtals um 18,5 milljörðum króna.
Forvarnir gegn ósmitbærum sjúkdómum
Verkefnið sem snýr að ósmitbærum sjúkdómum nefnist JA PreventNCD (Joint Action Prevent Non-Communicable Diseases) og mun standa yfir í fjögur ár. Lýðheilsusvið embættis landlæknis hefur leitt þátttöku Íslands við undirbúning verkefnisins og var sérstaklega valið að taka þátt í verkþáttum sem samræmast markmiðum embættis landlæknis og styrkja sem best lýðheilsustarf á Íslandi. Helstu áhættuþættir ósmitbærra sjúkdóma eru óhollt mataræði, reykingar, áfengisneysla, hreyfingarleysi, geðheilbrigðisvandamál og félagslegur ójöfnuður. Ósmitbærir sjúkdómar valda um 80% af allri sjúkdómsbyrði í Evrópu, draga verulega úr lífsgæðum fólks og valda stærstum hluta heilbrigðisútgjalda innan Evrópusambandsins.
Alls taka 22 aðildarríki Evrópusambandsins þátt í verkefninu ásamt Íslandi, Noregi og Úkraínu og nemur heildarfjárhæð Evrópusambandsins til verkefnanna 11 milljörðum króna.
Aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og landsáætlun Íslands
Verkefnið sem snýr að aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis (EU-JAMRAI-2) hefur að markmiði að innleiða skilvirkar aðgerðir til vöktunar, forvarna og aðgerða gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, jafnt hjá fólki, dýrum og í umhverfinu, í anda hugmyndafræði einnar heilsu (One Health). Verkefnið er til fjögurra ára og snýr einkum að sýklalyfjagæslu, sýkingavörnum, vöktun, aðgengi að sýklalyfjum og vitundarvakningu um sýklalyfjaónæmi.
Eitt helsta markmið EU-JAMRAI-2 er að styrkja landsáætlanir um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi í ríkjum Evrópu. Alls taka 27 Evrópuþjóðir þátt í verkefninu og nemur heildarfjárhæð Evrópusambandsins í styrki til þeirra um 7,5 milljörðum króna. Nýverið skilaði starfshópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði í samstarfi við matvælaráðherra og ráðherra umhverfismála, aðgerðaáætlun til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis hér á landi. Þannig mun EU-JAMRAI-2 veita bæði fjárhagslegan og faglegan stuðning við þær aðgerðir sem ákveðið hefur verið að ráðast í hérlendis til að stemma stigu við útbreiðslu ónæmra baktería.
- Nánar um JA PreventNCD á vef embættis landlæknis (ósmitbærir sjúkdómar)
- Nánar um EU-JAMRAI-2 á vef embættis landlæknis (sýklalyfjaónæmi)