Nú stendur til að breyta kvótakerfinu til að ná meiri „sátt“ um það.
Ekkert er tekið tillit til þess í undirbúningi frumvarps matvælaráðherra um þetta efni, að kvótakerfið hefur ekki skilað því sem lofað var og lagt var upp með, þvert á móti, það hefur algerlega brugðist, skilar miklu minni afla, lagt landsbyggðina í rúst og gert örfár fjölskyldur stórríkar hvað þá þeirri staðreynd að mikill meirihluti þjóðarinnar er mjög á móti þessu kerfi.
Í tilefni þess að halda skal áfram kvótakerfi, vil ég birta hér 26 ára gamla grein eftir Arnmund Backman heitinn, en hann var aðstoðarmaður Lúðvíks Jófsepssonar þegar hann sem sjávarútvegsráðherra fékk senda fyrstu svörtu skýrslu Hafró.
Hann var vitni að því þegar Lúðvík hringdi í útgerðarmenn um allt land og leitaði eftir áliti þeirra á ástandi fiskstofna og henti að því loknu skýrslunni í körfuna með viðeigandi orðavali.
Hafró svarað ekki þessari grein enda hafa þeir alltaf svarað með þögninni, gera það enn og komast upp með það. Fari þessi lög, sem nú eru í bígerð, í gegn er baráttan fyrir auknu frelsi til fiskveiða töpuð. Mun það virkilega gerast átakalaust?
Fjögur þúsund milljónir – Arnmundur Backman hrl. DV 1997
Er pólitískt heilsufar allra stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka orðið svo bágborið um þessar mundir, að halda verði þorskveiðum niðri með handafli og gervivísindum til þess að kerfið hrynji ekki?“Fyrir nokkru reyndi ég á þessum stað að vekja athygli á því að allar horfur væru á að Alþingi myndi á næstunni heimila útgerðarmönnum að veðsetja kvótann.
Að vísu ekki heinum orðum, en svo lævíslega orðað, að verðlauna ætti höfund frumvarpsins úr Móðurmálssjóði. Verði þetta frumvarp að lögum munu veðhafar í fiskiskipum, aðallega bankar og sjóðir, öðlast eins konar haldsrétt í fiskistofnum þjóðarinnar. Stærstu lánadrottnar útgerðarinnar eru Landsbanki íslands, Fiskveiðasjóður og Búnaðarbankinn.
Ríkisbankana stendur til að einkavæða á næstunni eins og kunnugt er. Og þar með verða lífshagsmunir þjóðarinnar, fiskurinn í sjónum, komnir í bönd. Einkavæddir til fulls til frjálsrar sölu og veðs fyrir örfáa einstaklinga, sem vita ekki aura sinna tal. Svikamyllan gengur upp meðan eigandinn, íslenska þjóðin, spilar lottó, skokkar og spekulerar í verðbréfum.
Fjórir milljarðar í hlut!
Öllum er í fersku minni þegar formaður Alþýðuflokksins leyfði sér að benda á þann augljósa möguleika í vetur, að hlutabréf í útgerðarfyrirtækjum væru allt of hátt skráð. Kerfið hlyti að hrynja þar sem framleiðslan stæði ekki undir þessari arðsemi. Hann fékk bágt fyrir frekjuna í sér.
Og ekki er langt síðan upplýst var í öllum fréttamiðlum, að Samherji h.f. á Akureyri væri orðið stærsta fyrirtæki landsins. Stærra en Eimskip! Og ekki bara það. Heldur einnig að ef einn aðaleigandinn, drengur góður, vildi selja hlut sinn í félaginu eftir rúmlega áratugar starf, fengi hann tæpa 4 milljarða króna í sinn hlut! – Fjögur þúsund milljónir – takk fyrir. Svona er ísland í dag.
Ég á sjómann fyrir vin suður með sjó. Hann er einhver harðduglegasti maður sem ég þekki og hefur þrælað á sjó í 35 ár. En hann á ekki 4 milljarða í peningum. Ekki einu sinni 4 milljónir. Kannski 4 þúsund ef hann leitar vel. Þó á hann, og aðrir sjómenn, 30% hlut í aflanum sem dreginn er á land.
Þessir sjómenn eru nú miskunnarlaust pindir til að kaupa kvóta með útgerðarmönnum af öðrum útgerðarmönnum, sem hirða andvirðið frá sínum sjómönnum. Og kvótakerfinu, þessum ránskap, var öllu komið á vegna þess að íslenskir fiskifræðingar eru svo miklir vinir þorsksins.
Áfram Færeyjar
Hvernig má það vera að kvóti í eigu þjóðarinnar færi réttum mönnum slíka auðlegð? Og þá kemur stóra spurningin: Hvað verður um gullgröftinn ef veiðar á þorski verða gefnar frjálsar? Ef verð á varanlegum kvóta hrynur vegna góðæris?
Segjum að næsti sjávarútvegsráðherra losni úr álögum, feti í fótspor Færeyinga, heimili næstum óheftar veiðar þrátt fyrir svartagallsraus fiskifræðinga og uppskeri sjóinn fullan affiski í staðinn. Alþjóða Hafrannsóknarráðið (einn íslenskur fiskifræðingurinn er þar í ráðgjafarnefnd) og færeyskir fiskifræðingar vildu banna Færeyingum allar þorskveiðar fyrir fjórum árum þegar veiðar voru komnar niður í 10 þús. tonn á ári.
Færeyingar hlustuðu ekki á þetta, höfnuðu kvótakerfi og tóku upp sóknarstýringu, sem gaf ekki færi á kvótabraski og spillingu, og veiddu 100 þúsund tonn umfram ráðgjöf á síðustu 3 árum. Og nú er sjórinn gulur af fiski við Færeyjar.
Arnmundur Backman, hrl. DV Kjallari 2. maí 1997