Róleg nótt í það heila hjá LRH, þó ýmis smávægileg verkefni tengd ágreiningi milli fólks og ölvaðra einstaklinga hverra nærveru var ekki óskað af húsráðendum. Þá var tilkynnt um slagsmál tveggja manna utan við knæpu eina, en þeir voru horfnir inn í nóttina er laganna verði bar að garði. Höfð voru afskipti af aðila sem var að fara inn í ólæstar bifreiðar í Vesturbænum en ekki er talið að hann hafi stolið neinu.
Umferð næturinnar gekk vel fyrir sig, þó var ökumaður kærður fyrir hraðakstur og skráningarnúmer fjarlægð af öðru ökutæki vegna vanrækslu á bifreiðaskoðun.
Tilkynnt var um líkamsárás í heimahúsi á Varðsvæðinu. Árásaraðili var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann var vistaður. Var hann tekinn fyrir vegna málsins morguninn eftir, ásamt fleiri málum sem hann átti óuppgerð hjá lögreglu. Var viðkomandi að því loknu fluttur til afplánunar í fangelsi, þar sem hann þarf að sitja af sér nýlegan dóm.
Um morguninn var tilkynnt um tvö innbrot, annað í fyrirtæki en hitt í heimahús. Þá höfðu óvelkomnir aðilar gert sér næturstað í vinnuskúr, ásamt því að klæða sig í fatnað verktakans á staðnum. Voru þeir á braut er lögreglu bar að garði, en engum sögum fer af því hvort þeir höfðu vinnufötin á brott með sér.
Þá var sömuleiðis tilkynnt um mann í annarlegu ástandi við leikskóla í Austurborginni.
Þá var tilkynnt eld í gróðri í Elliðaárdal. Er vert að benda á það að nú fer í hönd sá árstími sem slíkir eldar gerast algengir, oftar en ekki af ásettu ráði en slíkt getur þó einnig gerst af slysni þegar óvarlega er farið með t.d. einnota grill eða sígarettur nálægt þurrum gróðri. Vill lögregla brýna fyrir fólki að gæta að sér, enda getur hlotist mikið tjón af slíkum eldsvoðum, jafnt í viðkvæmum gróðri sem og hreiðurstæðum fugla. Þá þarf auðvitað að taka samtal við yngri kynslóðina varðandi þessi mál, enda gerendur yfirleitt ungir að árum og gera sér enga grein fyrir þeim afleiðingum sem gróðureldar geta haft fyrir umhverfið.