Nú hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákveðið að fórna á altari skammtímagróða, almannahagsmunum íbúa Hafnarfjarðar. Hér er verið að selja síðasta hluta Rafveitu Hafnarfjarðar sem stofnuð var 1937 eftir botnlausa vinnu framsækinna Hafnfirðinga sem rekja má allt til ársins 1904 eða í 116 ár með frumkvöðlastarfsemi Jóhannesar Reykdal.
Hlutur bæjarins í HS-veitum hefur hefur hækkað um 2 milljarða síðan 2013. Stórkostleg verkefni bíða þessa fyrirtækis handan hornsins. Rafvæðing hafna á Reykjanesskaga, uppbygging vetnisiðnaðar með tilheyrandi hafnaraðstöðu, fiskeldi og margt fleira. Þetta mun án nokkurs vafa auka verðmæti þessa hlutar bæjarins á komandi misserum og árum. Það alvarlega er að hvergi í verðmati sérfræðinga á verðmæti hlutarins/fyrirtækisins var þessum tækifærum velt upp.
Uppgjör vegna Covid er eitthvað sem leysa verður á stærri vettvangi en í Hafnarfirði, og er ekki á færi einstakra sveitarfélaga. Það hrun sem orðið hefur á rekstrarmódelum sveitarfélaga hefur ekkert með Hafnarfjörð einan að gera. Lánalínur frá Seðlabanka án vaxta og afborgana í 3-4 ár þurfa að koma til. Að afloknu Covid liggur svo fyrir hvort hægt sé að stilla upp sjálbæru rekstrarmódeli sveitarfélaga, þ.m.t. Hafnarfjarðar. Þá fyrst eiga menn að taka yfirvegaða ákvörðun um sjálfbærni sveitarfélagsins og hvort neyðin reki menn til sölu á eignum bæjarins, m.a. í hinu merkilega fyrirtæki HS-veitum, nú eða sölu á Hafnarfjarðarhöfn, sölu á Krísuvík til Grindvíkinga eða hvað það sem kann að reynast nauðsynlegt nú eða sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum ekki að taka ákvarðanir í miklu ójafnvægi líkt og meirihlutinn í Hafnarfirði hefur gert.
Ekki fyrr en Covid uppgjörið liggur fyrir og þá hvort grundvöllur sé til sjálfbærs rekstur sveitarfélaga sé til staðar, þá fyrst á að taka ákvarðanir um sölu á eignum. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði hafa með ákvörðun sinni fórnað á altari skammtímagróða almannahagsmunum íbúa Hafnarfjarðar. Langtímahagsmunum er kastað fyrir róða.
Dagurinn 28. október 2020 er því hinn dapri dagur í sögu Hafnarfjarðar.
Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði