Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri aðför að heimilum landsins sem Seðlabankinn stendur fyrir
Á einu ári hefur Seðlabankinn aukið mánaðarlega greiðslubyrði heimilanna um 130 – 200.000 kr. í hverjum mánuði og það er augljóst öllu sæmilega skynsömu fólki, að heimili með meðaltekjur eða minna munu ekki standa undir þessum álögum til lengdar.
Það má líkja aðgerðum Seðlabankans við það að kveikja í húsi til að losna við köngulóavef
Allar aðgerðir Seðlabankans eru verðbólguhvetjandi, því hvert fara ört hækkandi álögur á fyrirtæki, annað en út í verðlagið? Og hvert fer aukinn húsnæðiskostnaður heimilanna annað en beint inn í húsnæðislið vísitölu neysluverðs?
Og hvert fer fjármagn heimilanna annað en inn í troðfullar hirslur bankanna sem nú fitna eins og púkinn á fjósbitanum? Þar er sko veisla.
Það er hreinlega pínlegt að hlusta á gaslýsingar Seðlabankastjóra þegar hann reynir að sannfæra fólkið í landinu um að þessar verðbólguhvetjandi aðgerðir séu þeim til góðs og gerðar til að verja kjarabætur þeirra frá því að brenna upp á verðbólgubáli, því að á sama tíma tekur hann margfalt hærri fjárhæðir af fólkinu og afhendir bönkunum á silfurfati.
Skynsemin er víst ekki meiri en Guð gefur og maður skyldi ætla að nóg væri af henni innan veggja Seðlabankans, en þá ber að líta til þess hversu einsleitur hópurinn sem skipar peningastefnunefndina er. Þau koma öll úr fjármálageiranum og setja hagsmuni hans alltaf í forgang, eins og sjá má á vaxtahækkunum síðasta árs.
Einnig er vert að minna á að þau deila ekki kjörum með fólkinu í landinu með sínar 2 milljónir í laun á mánuði. Þau eru ekki að dæma sig sjálf í þrældóm bankanna, heldur bara „hina“.
Það þarf ekki að skilja allt eftir í rjúkandi rúst til að ná tökum á verðbólgunni. Hún er vissulega slæm en hún er ekki svona slæm. Aðgerðir Seðlabankans eru u.þ.b. sexfalt verri en verðbólgan sjálf. Það eru aðgerðir Seðlabankans sem eru að koma heimilum landsins á vonarvöl, ekki verðbólgan.
Ef svo fer sem horfir munu þúsundir glata heimilum sínum á næstu árum. Núna eru heimilin að bjarga sér fyrir horn með skuldbreytingum, frystingum, yfirdráttum og notkun séreignarsparnaðar.
Því miður lengja þessar aðgerðir einungis í snörunni og þegar að yfir lýkur verður fólk verr statt en áður, með hærri skuldir, yfirdrætti í botni og búin að glata séreignarsparnaði sínum í gráðugt gin bankanna.
Í dag tekur það einungis 3 ár og 7 mánuði fyrir „hina lágu“ afborgun verðtryggðs láns að ná afborgun óverðtryggðs láns og þá þegar verður höfuðstóll 40 milljón króna verðtryggðs láns til 25 ára, kominn upp í 50,1 milljón. Eftir 10 ár verður hann 68 milljónir og mánaðarleg afborgun 470.000. Eftir 15 ár verður lánið komið upp í 77 milljónir og afborgunin 743.000. Afborganir hækka svo áfram þegar höfuðstóllinn tekur loksins að lækka og þegar hann verður loksins aftur 40 milljónir eftir tæp 23 ár verður mánaðarleg afborgun 1,5 milljónir. Lokagreiðsla lánsins verður 1.853.000 kr. Á sama tíma verður afborgun óverðtryggða lánsins með 7,5% vexti, enn þá sú sama og í upphafi, eða 263.000 kr. Þessar tölur eru úr lánareiknivél Landsbankans.
Þetta er „skjólið“ sem verið er að neyða fólk til að flýja í.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja beina því til ráðherra ríkisstjórnar Íslands að þau axli ábyrgð á því að leyfa embættismönnum, sem þau hafa bæði ráðið og skipað, að rústa efnahag heimilanna þannig að þau beri þess aldrei bætur.
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla því harðlega að ókjörnir embættismenn hafi þessi völd. Með fullri virðingu fyrir sjálfstæði þeirra í störfum að öðru leyti, þá hafa þeir núna gengið of langt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verður að stöðva peningastefnunefnd Seðlabankans áður en heimilin brenna til grunna, ekki á verðbólgubáli, heldur bálinu sem Peningastefnunefndin kveikti í og hellir í sífellu olíu á.
15.000 fjölskyldur misstu heimili sín eftir síðasta hrun. Nú er líklegt að þegar snjóboltaáhrif verðtryggingarinnar koma í ljós innan fárra ára, verði skaðinn mun meiri en þá.
Aðförin gegn heimilunum er glæpsamleg og Hagsmunasamtök heimilanna lýsa fullri ábyrgð á hendur Seðlabanka Íslands og ríkisstjórninni, grípi hún ekki til tafarlausra aðgerða til varnar heimilum landsins.
Hagsmunasamtök heimilanna
Umræða