“Farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“
Páll Magnússon fer hörðum orðum um einkavæðinguna á Íslandsbanka eftir að brot af upplýsingum um söluferlið leit dagsins ljós í vikunni. Krafa stjórnarandstöðunnar er enn harðari nú í dag um að stofnuð verði rannsóknarnefnd um allt söluferlið, en var fljótlega eftir útboðið. Þá hefur þingmaður Samfylkingarinnar sem jafnframt er lögmaður sagt að líklega þurfi að fara fram sakamálarannsókn á einkavæðingarferlinu þar sem velt yrði við hverjum steini og allir aðilar málsins dregnir til ábyrgðar.
,,Það var flestum ljóst strax í kjölfar útboðs á 22% hlut almennings í Íslandsbanka í fyrra, að söluferlið var bæði siðlaust og spillt. Nú er komið í ljós að það var glæpsamlegt líka.
Þannig lýkur þá sögunni um “farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“ eins og forstjóri Bankasýslunnar kallaði það, en hann sá um söluferlið í umboði fjármálaráðherra, sem var líka hæstánægður með þetta allt saman. Líklega finnast nú fáir sem myndu treysta þessum aðilum framar til að selja svo mikið sem íspinna í eigu almennings.
Það er svo að spilast út þessi sérkennilegi farsi: Afbrotamennirnir í Íslandsbanka semja um það við Fjármálaeftirlitið að verða lausir allra mála gegn því að fórnarlambið í málinu, almenningur sem á bankann, greiði 1,2 milljarða í sekt fyrir glæp gerendanna.“ Segir Páll Magnússon um málið og að lokum þetta:
“Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti“, sagði Jón Hreggviðsson.“
Umræða