Fjármála- og efnahagsráðuneytið fól í júní sl. fjórum sérfræðingum að vinna skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Þeir hafa það verkefni að meta kosti og galla sjálfstæðs gjaldmiðils samanborið við aðild að stærra gjaldmiðlasvæði eins og evrusvæðinu.

Daði Már Kristófersson
Vinnan er leidd af Catherine L. Mann, fyrrum aðalhagfræðingi OECD, sem situr í peningastefnunefnd seðlabanka Englands. Ásamt henni vinna að skýrslunni þau Hilde Christiane Bjørnland, prófessor við Norska viðskiptaháskólann, Steinar Holden, prófessor við háskólann í Osló og Stijn Claessens fyrrum aðstoðarframkvæmdarstjóri hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans (BIS) sem er nú með stöðu við Yale-háskóla.
Ráðuneytið leitaði eftir formanni í hópinn sem hefði yfirgripsmikla þekkingu, reynslu eða menntun á sviði alþjóðaviðskipta og gengismála. Það var forgangsatriði af hálfu ráðuneytisins að hópurinn væri skipaður einstaklingum sem gætu unnið vel saman og því var formanninum falið að móta hópinn að öðru leyti. Ráðuneytið gerði þó kröfu um að a.m.k. einn meðlimur hópsins væri frá Norðurlöndunum.
Formaður hópsins heimsótti landið nýlega og fundaði með ýmsum hagaðilum. Aðrir aðilar hópsins munu gera slíkt hið sama á næstu vikum.
Verkefni hópsins er annars vegar að bera saman kosti og galla þess að halda krónunni undir núverandi ramma veðbólgumarkmiðs og fljótandi gjaldmiðils og hins vegar að skoða kosti og galla þess að taka upp aðra mynt.
Vinna hópsins hverfist um fjögur meginþemu: Áhrif mismunandi gjaldmiðlafyrirkomulags á atvinnulífið og utanríkisviðskipti, vinnumarkaðinn og fyrirkomulag launasetningar, fjármálamarkaðinn og fjármagnshreyfingar milli landa og áhrifin á hagkerfið í heild. Sérfræðingarnir skila skýrslu sinni til ráðherra á fyrri hluta næsta árs.
Krónan hrynur og er áhættugjaldmiðill – „Tími krónunnar er liðinn“

