„Það þarf bara eitt skipti í kassanum og þá er allt farið til fjandans á viku,“ segir Víðir Snær Björnsson
Víðir er 43ja ára gamall og vinnur sem málari. Víðir hefur mest tapað hátt í einni milljón á einum degi í spilakössum, en vanalega tapaði hann um fimmtíu til hundrað þúsund á dag. Víðir segir spilafíknina heltaka sig. Þegar hann fellur gerir hann allt fyrir aurinn. Hann hættir að þrífa sig, hættir að sofa. Allt sem hann gerir hefur þann eina tilgang að redda pening til að spila með.
„Þetta er langöflugasta fíknin,“ segir Víðir, sem hefur einnig reynslu af því að lifa með áfengis- og vímuefnafíkn. „Þegar mér líður eins og eitthvað vanti í lífið þá fer ég fyrst í spilakassann til að stoppa hausinn. Þar loka ég út heiminn. Deyfi mig og gleymi öllu. Ég fer frekar í kassann en til sálfræðings eða læknis. Það er skrýtið hvernig þetta virkar,“ segir Víðir. Hann telur sér trú um að hann sé í kassanum til að vinna „þann stóra“. Það er samt ekki markmiðið.
„Ég hef unnið. Stærsti vinningurinn sem ég hef unnið var 1370 þúsund. Mamma geymdi fyrir mig hálfa milljón. Það kvöld tapaði ég 450 þúsund krónum og afgangurinn fór á tveimur dögum. Það fylgja því engar tilfinningar að vinna. Mér er alveg sama þó ég vinni. Það er best að vinna ekki því þá get ég ekki haldið áfram að spila.“
Sárasta minningin
Það fylgja því hins vegar alls kyns afleiðingar að tapa. Tapa jafnvel aleigunni.
„Kvíðahnútur, svitaköst, engin matarlyst. Þegar ég fell bryð ég Íbúfen eins og Smarties. Þegar ég tapa þá fer ég strax heim og undir sæng. Vona að ég sofni sem fyrst. Það hafa komið tímabil þar sem ég óskaði þess að ég vaknaði ekki aftur. En síðan vaknaði ég rosalega þungur, fór í vinnuna og áður en vikan var úti bað ég yfirmanninn um fyrirframgreiðslu á laununum.“
Ein minning er sárari en aðrar en hún varðar dóttur Víðis sem er fimmtán ára í dag.
„Hún var fjögurra ára og kom til mín í jólafríi. Þann 30. desember fékk ég 260 þúsund útborgað. Ég var búinn með þann pening fyrir klukkan 14 á Gamlársdag. Ég kom heim, lagðist í rúmið og sofnaði. Þannig liðu áramótin. Fjögurra ára dóttir mín eyddi áramótunum með fjölskyldunni minni á meðan ég var meðvitundarlaus inni í herbergi. Búinn að tapa öllu. Það er minningin sem rífur mig mest. Að hún hafi verið hjá mér og ég hafi ekki horft á Skaupið með henni eða sprengt flugelda.“
„Plís ekki opna þessa kassa aftur“
Víðir á góða að – þess vegna hefur hann aldrei misst móðinn. Aldrei sofnað svefninum langa. Hann hefur ekki spilað í spilakössum í þrjá mánuði vegna þess að kassarnir eru lokaðir út af COVID-19. Víðir segir það algjöra himnasendingu.
„Ég er bara guðslifandi feginn að þessir kassar séu lokaðir. Ég er lifandi en það er grátlegt hvað þetta er búið að rústa mörgum,“ segir Víðir. Á þeim þrem mánuðum sem hann er búinn að vera spilalaus hefur hann byrjað að leigja íbúð með aukaherbergi fyrir dótturina, greitt af sínum skuldum og hugsað betur um sjálfan sig. Hann er mun léttari á fæti og nýtur lífsins með sínum nánustu. Hann er ekki brosmildur maður að eigin sögn en finnur nú lífsviljann streyma um æðarnar. Hann telur að hann gæti staðist freistinguna ef spilakassarnir opna aftur – en er hreinlega ekki viss. Hann býr í Kópavogi, steinsnar frá um hundrað kössum í Hamraborg. Eins og hann segir þá þarf bara eina viku til að rústa lífinu í spilakössum – enda ekkert eftirlit með þeim sem sóa ævisparnaðinum í spilasölum.
„Fyrir nokkrum árum töpuðum við vinur minn 4,2 milljónum á tuttugu dögum. Við sátum hlið við hlið í spilasal og spiluðum og spiluðum. Við vorum fyrstir inn í kassana og seinastir út. Enginn sagði neitt. Enginn pikkaði í okkur og sagði að nú væri nóg komið. Við vorum farnir að þekkja starfsmenn á báðum vöktum. Töpuðum 50 til 100 þúsund krónum á klukkustundarfresti. Enginn sagði neitt. Plís ekki opna þessa kassa aftur.“
LOKUM.IS
Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Herferðin er á vegum SÁS, samtaka áhugafólks um spilafíkn.