Skipstjóri flutningaskipsins Longdawn vissi að skipið hefði siglt á strandveiðibátinn Höddu HF en var undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Hann hélt för skipsins áfram þrátt fyrir að stýrimaður þess hefði talið sig sjá bátinn sökkva.
Skipstjóri og annar stýrimaður flutningaskipsins Longdawn stofnuðu lífi og heilsu skipstjórans á strandveiðibátnum Höddu HF í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt með því að hafa ekki komið honum til hjálpar þegar flutningaskipið sigldi á bátinn þannig að hann sökk. Þetta kemur fram í ákæru gegn mönnunum tveimur og var fyrst birt hjá rúv.is.
Í henni segir að skipstjórinn hafi haldið för flutningaskipsins áfram þrátt fyrir að annar stýrimaður þess hefði upplýst hann um áreksturinn og að hann hefði talið sig sjá strandveiðibátinn sökkva.
Við áreksturinn kom gat á stjórnborðshlið og kjöl bátsins og hvolfdi honum. Skipstjóranum tókst að komast í björgunargalla og koma sér út úr sökkvandi bátnum. Skipstjóri annars strandveiðibáts, sem var skammt undan, bjargaði honum úr sjónum.
Í ákærunni segir að með því að skilja manninn eftir í sjónum hafi skipstjórinn og stýrimaðurinn stofnað lífi hans í augljósan háska.
Mennirnir eru ákærðir fyrir hættubrot og brot gegn lífi og líkama og siglingalögum. Í ákærunni segir enn fremur að skipstjórinn hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og því óhæfur til að sinna skipstjórninni með fullnægjandi hætti.
Þess er krafist að báðir mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
Mannbjörg varð þegar strandveiðibátur sökk úti fyrir Garðskaga