Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta bendir til þess að kvikuhlaup gæti verið að hefjast eða hafið og líklegt sé að eldgos hefjist í kjölfarið. Stærsti skjálftinn var fyrir stuttu og mældist hann vera 4,1.
Uppfært 29. maí 2024, kl 11:00
Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta bendir til þess að kvikuhlaup gæti verið að hefjast eða hafið og líklegt sé að eldgos hefjist í kjölfarið.
Uppfært 28. maí 2024, kl. 18:30
Alls hafa um 400 jarðskjálftar mælst síðustu sjö daga nærri Sundhnúksgígaröðinni. Stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð við Sundhnúk. Virknin dreifist frá Grindavík norðaustur að Stóra Skógfelli eftir kvikuganginum. Í gær mældust hátt í 100 jarðskjálftar á svæðinu og það sem af er degi í dag hafa mælst tæplega 70 skjálftar. Frá því að eldgosinu lauk, 9. maí, hafa flesta daga mælst á milli 40 og 60 skjálftar en stöku daga um 80 skjálftar, að frátöldum 24. og 25. maí þegar töluvert færri skjálftar mældust vegna hvassviðris. Því virðist vera sjáanleg aukning í fjölda skjálfta frá því í gær.
Landris við Svartsengi heldur áfram á stöðugum hraða sem bendir til að kvika haldi áfram að safnast fyrir í kvikhólfinu undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að um 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við kvikuhólfið síðan eldgosið hófst 16. mars. Engin gögn benda til að það sé að draga úr flæði kviku inn í kvikuhólfið. Ekki er hægt að áætla annað en að áfram séu miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi. Töluverð óvissa er þó í kerfinu um hvenær það verður og líka nákvæmlega hvar það mun koma upp. Þó er líklegast að kvikuhlaup verði á svipuðum slóðum og þau sex kvikuhlaup sem hafa orðið síðan í nóvember 2023. Líklegt er að fyrirvarinn á því verði stuttur.
Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá október 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023. Hér sést að heildarmagn kviku hefur aldrei verið meira frá því að kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.
Í síðustu viku mældust nokkrum sinnum minniháttar þrýstingsbreytingar í mjög skamman tíma í borholum HS Orku í Svartsengi. Slíkar breytingar hafa ekki mælst síðustu þrjá daga. Áður hefur komið fram að merki um nýtt kvikuhlaup væru staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun ásamt þrýstingsbreytingum í borholum á svæðinu. Gera má ráð fyrir því að meiri þrýstingsbreytingar muni mælast í aðdraganda kvikuhlaups ásamt því að breytingar verði í öðrum mælikerfum.
Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu sem gildir að öllu óbreyttu til 4. júní.
Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki endilega fylgja mikil skjálftavirkni þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.
(Smellið á kortið til að sjá það stærra)
Reikna með eldgosi – Ferðamenn í Bláa lóninu eins og ekkert sé?