Hinn árlegi Íslendingadagur sem haldinn er í Gimli í Kanada fór fram um helgina. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var viðstödd hátíðarhöldin og ávarpaði gesti sem heiðursgestur og fulltrúi ríkisstjórnarinnar í ár. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1890 og er næst elsta þjóðernishátíð (e. ethnic festival) sem haldin er í Norður Ameríku. Þá er Íslendingadagurinn stærsta hátíð fólks af íslenskum uppruna í Kanada.
Íslenskur menningararfur varðveittur í Kanada
Yfirskrift hátíðarinnar í ár var Continue your Saga eða Haltu sögu þinni áfram á hinu ástkæra ylhýra. Í ræðu sinni fjallaði Áslaug Arna um ríka frásagnarmenningu íslensku þjóðarinnar í aldanna rás og sagði í því skyni frá því þegar ungur Halldór Laxness, þá 14 ára, skrifaði bréf til barnatímaritsins Sunshine árið 1916. Tímaritið var ætlað börnum af íslenskum uppruna í Vesturheimi og lýsti þessi Nóbelsverðlaunahafi framtíðarinnar lífinu á Íslandi, náttúru landsins og djúpstæðum áhrifum Íslendingasagna á íslensku þjóðina.
,,Vinátta Íslands og Kanada er okkur ómetanleg. Við Íslendingar erum stolt af samfélagi Vestur-Íslendinga hér í Norður Ameríku og sömuleiðis þakklát fyrir varðveislu íslenskrar menningararfleiðar sem styrkir samband ríkjanna enn frekar,” sagði Áslaug Arna í ræðu sinni. ,,Ég er einnig þakklát þeirri gestrisni sem mér hefur verið sýnd hér í Gimli og þá væntumþykju í garð Íslands sem hér ríkir. Ég mun ávallt hugsa hlýtt til þessarar heimsóknar líkt og þið hugsið hlýtt til gamla landsins ykkar, Íslands.“
Fjölbreyttar heimsóknir á Íslendingaslóðir
Undirritun á ungmennaskiptasamningi milli Kanada og Íslands fór jafnframt fram í tilefni af heimsókn ráðherra til Kanada. Í samstarfssamningnum felst að íslensk ungmenni geti ferðast og starfað í Kanada í allt að 12 mánuði, með möguleika á framlengingu, og öfugt.
Ráðherra flutti einnig ávarp á Íslendingahátíð í Mountain í Norður Dakóta fylki í Bandaríkjunum og heimsótti fjölda staða á Íslendingaslóðum, bæði í Manitóba og Norður Dakóta. Til að mynda voru Thingvalla Church og Víkur Church skoðaðar ásamt minnisvarða um Pál Thorlakson annars vegar og Sigtrygg Jónasson hins vegar, en sá síðarnefndi er gjarnan kallaður faðir Nýja-Íslands. Þá heimsótti Áslaug Arna New Iceland Heritage safnið í Gimli og Víkingagarðinn. Loks heimsótti ráðherra háskólann í Manitóba þar sem hún átti fund með aðstoðarrektor og skoðaði safn íslenskra bóka og bréfa sem er að finna við háskólann.